Fréttir

Þeistareykjavirkjun hlaut gullverðlaun IPMA

3. október 2019

Þeistareykjavirkjun, jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Norðausturlandi, hefur hlotið gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga – IPMA Global Project Excellence Award. Verðlaunin eru stærstu verðlaun sem veitt eru í fagi verkefnastjórnunar á heimsvísu. Meginstef verðlaunanna í ár var sjálfbærni.

Deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar, sem samþykkt var 2012, var unnið af Teiknistofu arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar ehf. Áður hafði teiknistofan unnið Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum í samvinnu við Náttúrustofu Norðausturlands og VGK Hönnun.

Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð í heimi sem metin hefur verið samkvæmt drögum að nýjum GSAP-matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana (Geothermal Sustainability Assessment Protocol). Niðurstöður matsskýrslunnar gáfu til kynna að undirbúningsferlið við Þeistareykjastöð hafi almennt fallið vel að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun samkvæmt sjálfbærnisvísum lykilsins. Af þeim 17 vísum sem metnir voru fengu 11 þeirra hæstu einkunn sem lykillinn veitir, eða „proven best practice.“ Þá þykir verkefnið til fyrirmyndar m.a. hvað varðar samskipti og samráð við hagsmunaraðila og nýtingu á jarðhitaauðlindinni.

https://www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/frett/theistareykjavirkjun-hlaut-gullverdlaun-ipma/